05.04.2010 23:30

Update á myndum

Langaði bara að setja stuttan texta um að það væri komið smá myndaupdate í albúmið. Maður þarf ekkert að blogga orðið lengur þar sem allir eru á facebook ;) eða flestir..

Var ss að setja inn myndir frá Geysisferð sem ég og pabbi fórum helgina 26-28.mars. Ferðin heppnaðist bara mjög vel þó við hefðum nú ekki komist á Vatnajökul eins og stefnan var. Vorum komnir að jökulrótunum þegar ákveðið var að fara beint niður í Drekagil í skálann þar vegna veðurs.

Ferðin annars skemmtileg en færið erfitt, búið að snjóa mikið.

Annars er lítið að frétta af mér og Hlín annað en bara lokaritgerðaskrif. Gerist ekki betra. Verður flott að klára þetta þó :)

Mbk. G

10.04.2009 20:30

Long time no see

Jæja núna er orðinn alltof langur tími síðan eitthvað var skrifað hér inn. Páskarnir eru gengnir í garð og við skötuhjúin erum bara heima að taka því rólega. Við ákváðum ekki að fara til borg óttans þetta árið.

Fjölskyldan hennar Hlínar var hjá okkur núna frá mánudegi til föstudags. Magnús Steinn kom frá Sverige og keyrðu hele familien svo til Akureyrar og gistu í litlu íbúðinni okkar. Það var þó alveg nóg pláss. Það er búið að vera mjög gaman þessa vikuna og mikið búið að gera. Ég tók hann Steina einn rúnt upp á Fálkafell og Súlumýrar á Súkkunni og Óli kom með syni sínum einnig. Það var ágætis skemmtun þrátt fyrir leiðinlegt færi.


En nóg um það, ég ætlaði nú að skrifa hér líka litla ferðasögu af Geysisferðinni sem ég fór í 27-29.mars síðastliðinn. Þetta átti sem sagt að vera ferð á slóðir björgunarmannana sem fóru í leiðangur upp á Vatnajökul til að bjarga áhöfninni úr Geysis flakinu sem hrapaði þar árið 1950.

4x4 klúbburinn hér fyrir norðan skipulagði ferðina og planið að keyra þá sömu leið og björgunarmennirnir fóru héðan frá Akureyri. Lagt var af stað frá Leirunesti á föstudegi um hádegið. Upphaflega voru ríflega 30 bílar skráðir í ferðina en þeim fækkaði niður í um 20 vegna veikinda og forfalla. Mönnum var svo skipt upp í hópa sem lögðu af stað á mismunandi tímum eftir því hvað hentaði þeim best. Ég var í hópi 1 sem lagði af stað um hádegið. Ég vildi vera framarlega í hópnum bara uppá ef við yrðum lengi á ferðinni og ef eitthvað kæmi uppá.. Sem það auðvitað gerði, en ég kem að því seinna.



Það voru fimm bílar í mínum hóp, Einn 44" Patrol, 38"&44" Land Rover, Súkkan mín á 35" og Econline á 46".



Hópurinn eins og ég sagði að ofan hittist á Leirunesti og þaðan lögðum við af stað inn í Mývatnssveit. Við stoppuðum svo í Reykjahlíð til að tanka á bílana áður en haldið yrði af stað í áttina að Drekagili. Fyrstu nóttina átti sem sagt að gista inn í Dreka. Svo þegar allir bílar voru orðnir mettaðir af eldsneyti var ferðinni haldið áfram. Það var ágætis veður þarna á föstudeginum og færið ljómandi svona í byrjun ferðarinnar. Súkkan dreif vel og allt í góðu standi. Þegar leið svo á daginn tók Súzuki á því að slíta einn af nýju mótorpúðunum sem ég hafði sett undir millikassann daginn áður. Ég var sem sagt búinn að taka millikassann í gegn fyrir ferðina þar sem hann lak aðeins og skipti ég því um pakkdósir í kassanum. Í leiðinni ákvað ég að skipta um þessa púða þar sem millikassinn hristist mikið og djöflaðist undir bílnum þegar það var erfitt færi. Ég sett stóra púða undir kassann sem ég hélt að myndi nú örugglega halda þessu litla dóti. En nei, aflið í Súkkunni (kaldhæðni) var það mikið að hún sleit einn púðann nánast strax í byrjun.



Þarna voru góð ráð dýr þar sem ég var ekki með gömlu púðana með mér. Sem betur fer segi ég nú bara var einn bifvélavirki með í túrnum, hann var ss kóari á Land Rover hjá honum Birni Pálssyni og hann var ekkert í neinum vafa hvað þyrfti að gera. Strappa kassann niður! - Já það hljómaði alla vega mjög rökrétt hjá honum. Við fengum lánaðann strappa hjá honum Bjössa og prufuðum að festa kassann. Þessi redding hélt nú reyndar ekki lengi, krókurinn á strappanum náði einhvern veginn slaka og losnaði því átakið á öllu saman og kassinn losnaði upp á ný. Við hertum þetta og breyttum þessu nokkrum sinnum yfir daginn og komst Súkkan nú töluverðan spotta í þessum æfingum. En undir kvöldið þá var farið að dimma og annar bíll í hópnum byrjaður með smá bilerí. Það var Patrol hjá honum Kristjáni Ólafssyni sem er með Toyota Landcruiser 80 mótor (4.2 línusexa). Það fór eitthvað öryggi í bílnum en því var reddað fljótlega. Við ákváðum því þar sem það höfðu orðið töluverðar tafir yfir daginn að húkka Súkkunni bara aftan í Björgunarsveitarbílinn sem var með okkur í hóp (Ford Econline á 46" blöðrum). Það voru ekki nema 7 km í Dreka og því engin ástæða til að vera anskotast til að reyna festa millikassann aftur þegar svona stutt var í skálann.

Ég hékk í spotta þessa 7km og líkaði það bara vel. Það heyrðust nú í talstöðinni orðrómar að þetta væri "taktík" hjá Súkkugenginu til að spara bensín þar sem ekki var víst að þeir hefðu haft með sér nóg (Þó 120 lítra alls).




En það var nú ansi gott að komast að Dreka og geta farið að gera við Súkkuna almennilega. Ég var ekkert smá feginn þegar ég heyrði að einn af körlunum úr öðrum hóp hefði haft borðvél með sér. Það var þá ekkert annað í stöðunni en að bora boltana í sundur úr festingunum í millikassanum og bora einnig sjálfann púðann bara í gegn og bolta þetta fast þannig að þetta myndi nú ALLS ekki losna.....

Viðgerðin tók nú engan ógurlegan tíma en þó var mér og Stefáni orðið frekar kalt í -15 gráðunum úti. En viðgerðin hafðist á endanum og Súkkan tilbúinn til að mæta næsta degi.

Um kvöldið fór hópurinn að fá sér örlítið í aðra tánna og leggja á ráðin með næsta dag. Spáin fyrir næsta dag var ekkert sérstaklega góð og var von á ansi vondu veðri upp á Vatnajökli á laugardeginum. Það var því algert glapræði að fara að ætla sér upp á jökul með þessa spá í huga og hættum við því við að fara á Bárðarbunguna. Það voru allir í hópunum sammála um þetta og var því ákveðið að fara inn í Réttartorfu sem er í Bárðardal held ég. Þar er skáli í eigu 4x4 eða Ferðafélags Akureyrar (man það ekki alveg).

Daginn eftir var lagt af stað frekar snemma eftir að allir hefðu gætt sér á dýrindis hafragraut og slátri sem var eldaður fyrir allan mannskapinn. Ekki verra það.

Færið á laugardeginum var ekkert sérstaklega skemmtilegt og mjög þungt. Veðrið var orðið fremur vont og skyggnið ekki gott (Mjög jákvæður er maður nú alltaf). Ég átti erfitt með að elta sporin hjá hinum í hópnum þar sem allir voru auðvitað á mun stærri dekkjum en Súkkan. Það var því bara ekið utan spors með allt í botni.. Það dugaði eitthvað fram eftir degi þangað til hinir tveir púðarnir í millikassanum ákváðu að slitna eins og sá deginum áður. Við tvíströppuðum því kassann bara niður og hélst það í lagi það sem eftir var dags. Það gerði gæfumuninn að púðarnir voru tveir þarna meginn og ekki var eins mikið álag frá kassanum þarna megin.



Annars var dagurinn bara góður og flestir drifu nú alveg ágætlega. Ég þurfti aðeins að hemja mig á gjöfinni til að slíta ekki strappana og reyna að halda jöfnum ferðahraða.

Loks komum við að Réttarkoti, og þar var farið í viðgerðir á Súkkunni aftur. Ég og Stefán réðumst í að þá framkvæmd að bora hina púðana út.. Það kom þó smá óhapp upp og skrifast það nú alfarið á mig. Málið er að borvélin sem við fengum lánaða var 12V og var hún tengd við sígarettukveikara. Ég setti því borvélina í samband og ætlaði að starta bílnum haldandi að hann væri í hlutlausum. En það var nú ekki alveg raunin og var bíllinn í fyrsta gír og í lága drifinu, ég svissaði á bílinn og haldiði að helvítis Súkkan hafi ekki ætt áfram með mig hálfann inn í bílnum haldandi á borvélinni. Ég reyndi nú að stökkva inn í bílinn og bremsa en ýtti örlítið á bensínið í leiðinni og komst bíllinn á smá ferð. Hann stöðvaði nú reyndar á endanum en því miður skelltum við aðeins utan í Land Rover hjá honum Bjössa félaga mínum. Til allrar lukku er nú sterkara í Land Rover heldur en í Suzuki og varð því bretanum ekkert meint af en það brotnaði smá uppúr stuðaranum hjá mér. Ekkert alvarlegt og ég var eiginlega bara guðs lifandi feginn að enginn slasaðist eða að það hefði orðið meira tjón af. Maður var auðvitað eins og auli eftir þetta og ég hóaði strax í hann Bjössa og sagði honum frá þessu. En svona gerast hlutirnir bara og maður verður að læra af svona mistökum.

 

Ég og Stebbi kláruðum að gera við Súkkuna og fórum svo inn í skála að fá okkur að borða. Orðnir helvíti kaldir og svangir eftir allan hamaganginn.

Það voru ekki allir sem ákváðu að gista inn í Réttartorfu á laugardeginum, það var ansi stór hluti hópsins sem ákvað að brenna bara beint til Akureyrar (enda ekki langt að fara svo sem). Þeir sjá nú reyndar held ég eftir þeirri ákvörðun í dag þar sem einn af bílunum sem fóru affelgandi út í miðri Suðurá og þurfti að fá dráttarvél frá Svartárkoti held ég að það heiti til að liðsinna þeim og ná bílnum uppúr ánni. Við hins vegar sem ákváðum að vera eftir sátum bara í hitanum inn í skálanum að hlusta á ófarir hinna í VHF talstöð drekkandi öl og hlustandi á tónlist.



Daginn eftir hélt allur hópurinn til Akureyrar. Við fórum auðvitað yfir sömu ánna og hinir lentu í veseninu í, barðið ofan í ánna var ansi hátt fyrir Suzuki og ákváðum við því að brjóta aðeins af því svo greyið myndi nú ekki velta framfyrir sig.



Þessi dagur gekk áfallalaust fyrir sig og dreif Súkkan bara nokkuð vel. Ég var að minnsta kosti sáttur með kaggann.

Við stoppuðum í smá stund á Samgöngusafninu á Ystafelli. Ég verð að segja að ég var nú hálf agndofa yfir þessu safni. Ég hafði aldrei komið þarna og það kom mér skemmtilega á óvart.



Svona allt í allt var þetta alveg snilldar ferð og er ég mjög feginn að hafa farið í hana þó maður hafi lent í smá óhöppum. Þetta fer allt í reynslubankann og maður verður tilbúinn með betri bíl fyrir næsta vetur. Er einmitt búinn að panta sterkari púða fyrir millikassan sem halda þessu dóti á sínum stað.

Þetta var alla vega ferðasagan frá Geysisferðinni, ég er ekki alveg viss hvort einhver nenni að lesa þetta en ég á þetta alla vega skrifað niður þangað til ég verð orðinn gamall og elliær og hef gaman af því að lesa svona sögur.

Áður en ég hætti nú að skrifa þá langaði mig líka að segja stutt frá lítilli ferð sem ég og Hlín fórum saman í. Það var fjölskyldudagur 4x4 klúbbsins uppi á Súlumýrum fyrir ofan Akureyri. Það var hist á hádegi á laugardeginum og grillað. Asskoti góður dagur og ég var nú mest sáttur með hvað henni Hlín fannst gaman. Hún tók sig til og tók hring á Trölla og henni fannst það ekkert smá gaman.




Annars er þetta nú komið í bili, það er hægt að nálgast myndirnar úr Geysisferðinni og Fjölskyldudeginum í myndaalbúminu hjá mér.

Kveðja, Gunnar Lár




25.02.2009 23:48

Blogg og vitleysa

Jæja kominn tími til að henda smá texta hér inn.

Ég var að setja inn myndir úr jeppaferðinni sem ég og Sigmar fórum í Flateyjardal með 4x4 klúbbnum. Fórum á laugardegi snemma morguns og vorum yfir allan daginn. Þetta var alveg mögnuð ferð og gerðist ansi margt skrautlegt. Súkkinn hjá mér dreif þetta nú samt allt og lenti ekkert í neinu basli. Átti í smá erfileikum með árbakkana því það er svo stutt á milli hjóla en það hafðist nú í flestum tilvikum. Þurfti aðeins að kippa í bílinn í einum bakkanum en það telst ekki með. Ég var ekki fastur emoticon

Annars er bara allt gott að frétta frá okkur. Ég er að verða vitlaus á allri verkefnavinnunni hjá mér. Skilaði af mér 3 verkefnum seinasta mánudag og þarf að skila 2 næsta mánudag. Og það er eiginlega bara byrjunin. Stærsta verkefni annarinnar er eftir ásamt fleiri öðrum smáverkefnum. (væl væl væl væl)

Annars erum við skötuhjú bara búin að hafa það gott og búin að dunda okkur þegar við höfum frían tíma

Ég mæli endilega með því að kíkja á myndirnar úr ferðinni. Þetta er án efa allra skemmtilegasta jeppaferð sem ég hef farið í og sú bilanafríasta. Það klikkaði ekkert hjá mér og allt hélst í lagi. Svoleiðis á það að vera ;)

Nenni ekki að blaðra meira í bili. Á að vera að læra en það klikkaði eitthvað aðeins. Meistaradeildin og svona,,, ú sí.

Kveðja,

Gunnsi glanni og Hlína fína :)

18.02.2009 09:25

Blogg


Guten tag meine damen und herren..

Langaði að setja inn smá færslu hérna þar sem maður hefur verið svo duglegur upp á síðkastið að viðhalda vefnum. (Þetta er ágætis leið til að maður muni hvað maður var að gera á yngri árum þegar maður verður kominn með meiri Alzheimer og man ekki neitt stundinni lengur)

Annars er bara allt gott að frétta frá mér og Hlín. Skólinn er kominn vel af stað og maður er farinn að vinna vel fyrir verkefnavinnunni. Önnin hjá mér og Hlín virðist vera svolítið mismunandi þar sem hennar önn virðist fremur afslöppuð en mín er stanslaus keyrsla og fáránleg verkefnavinna. Akkúrat öfugt miðað við hvernig þetta var seinustu önn... Skemmtilegt.

Annars er það helsta að frétta að ég er að fara í jeppaferð með Eyfirðingadeild 4x4 klúbbsins hérna fyrir norðan næsta laugardag. Mér skylst á manninum sem skipuleggur ferðina að farið verði í Laugafell ef það verður fært þangað. Farið verður kl 08:00 um morguninn og komið heim seinna um daginn. Það verður fróðlegt að sjá hvað Trölli hefur í stærri jeppana.

Jæja ég ætla ekki að blaðra meira í bili þar sem ég á nú víst að vera fylgjast með því sem blessaður Kostnaðarbókhaldskennarinn er að reyna að koma útur sér. Honum tekst það bara ekkert sérlega vel,

Með kveðju

Gunnar

09.02.2009 09:33

Kaupstaðarferð



Ég og Hlín kíktum til Reykjavíkur núna um helgina í smá kaupstaðarferð. Það var stór vísindaferð hjá mér í skólanum og því kjörið að slá til í smá ferðalag.

Ég fór með skólanum í Marel og Seðlabankann, svo fór hópurinn í fleiri fyrirtæki einnig sem ég fór ekki í. Mig hlakkaði mikið til þess að fara í Seðlabankann og hafði ég vonað að Dabbi hefði verið búinn að svara bréfinu frá Jóhönnu áður en heimsóknin var, en svo var nú reyndar ekki.

Varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum með heimsóknina í Seðlabankann, við vorum sett í einhvern fyrirlestrarsal og þar var bara talað í einn og hálfan tíma og svo ekkert meir. Maður hélt nú að það yrði farinn "túr" í gegnum húsið og maður fengi aðeins að sjá hvernig væri þarna inni. En við fengum ekki einu sinni að fara í gegnum öryggishliðið emoticon

Svo seinna um daginn fór ég í Marel með liðinu og það var mjög gaman. Marel og mjög framarlega í sínum geira og var afskaplega skemmtilegt að skoða fyrirtækið hjá þeim. Þar var einmitt svona "walk around" um fyrirtækið sem ég hafði mikið gaman af. Mæli með Marel ef menn komast í vísindaferð þangað.

Annars var helgin bara róleg hjá okkur. Hlín fór auðvitað í sínar verslunarleiðangra og ég held hún hafi farið oftar í Kringluna heldur en ég fór á klósettið alla helgina emoticon

Ég og pabbi réðumst í smá tiltekt heima og fórum með smá drasl upp í bílskúr upp í Mosó. Gerðist nú bara í fyrsta skipti í ansi langan tíma að við tókum eitthvað úr skúrnum en settum ekki bara inn í hann. En það dót fór nú bara mest allt á haugana.

Heimleiðin gekk bara fínt og var heiðskírt mest allan tímann.

Ekki meira í bili,

Kveðja,


01.02.2009 19:30

Sól og blíða á Akureyri

Hæ Hó,

Langaði að skrifa smá texta eftir þennan frábæra dag hér fyrir norðan. Það er búið að vera bongó blíiða í allan dag sem var ekki verra þar sem ég fór í stuttann jeppatúr með nokkrum félögum hér á Akureyri. Getið skoðað nokkrar myndir úr ferðinni í myndaalbúminu

Maður vonar bara að veðrið haldist eitthvað svona fram í vikuna svo maður geti skotist eitthvað aðeins meir..

Ég og Hlín förum svo suður næstu helgi, það er svokölluð "Stóra Vísindaferðin" í skólanum hjá okkur..

Ég held að Hlín ætli ekki í neina ferð en ég var að hugsa um að skella mér í Seðlabankann og í Marel.Verður fróðlegt að sjá ástandið þarna niður í Seðlabanka emoticon

Ekkert meira í bili ;)




25.01.2009 22:35

Bloggurus Ógurlegus

Jæja gott fólk, ekki allir í stuði?

Önnin hjá mér og Hlín er svona rétt að byrja og maður er að byrja finna fyrir álaginu svona hægt og rólega. Ég sé fram á mikla verkefna vinnu hjá mér þessa önnina, miklu meiri en í fyrra þó hún hafi þó verið alveg nóg.

En ég fékk loksins útur endurtektarprófinu mínu í Fjármálum og ég náði því sem betur fer. Ekki þó hægt að segja það um meirihlutan af fólkinu sem tók prófið, það féllu sjö eða átta af fimmtán manns sem þreyttu prófið. Hæsta einkunn var 6 ..... Ekki uppbyggilegt það að mínu mati.

Annars er bara allt gott að frétta af okkur. Við höfum bara verið að slappa af og hafa það náðugt svona að mestu. Fórum í hressilegan göngutúr í dag og skelltum okkur upp tröppurnar hjá kirkjunni. Hlín setti persónulegt met í sinni fyrstu ferð (hahaha) og fór á 48 sec. Ég lagði ekki í tímatöku að svo stöddu emoticon

Ég hef aðeins verið að leika mér að taka myndir upp á síðkastið og mig langaði að henda nokkrum hérna inn. Ég var sérstaklega ánægður með nokkrar myndir sem ég náði af tveimur hestum sem ég og Hlín keyrðum uppað þegar við vorum að rúnta eitthvað í hestahverfinu fyrir utan Ak. Þeir voru bara í rólegheitunum á veginum sem við vorum að keyra, annar var með hnakk á sér nema hann snéri öfugt. Mig grunaði nú strax að hesturinn hefði hent knapanum af baki. Ég fór aðeins útur bílnum og labbaði rólega í áttina að þeim, þeir virtust ekkert vera fælnir við það þannig ég gekk bara örlítið lengra, smellti fullt af myndum i leiðinni. En svo þegar ég var að kíkja í linsuna þá allt í einu tóku þeir á rás í áttina að mér, ég hélt bara áfram að mynda og þeir stöðvuðu svo bara nokkrum metrum fyrir framan mig. Klappaði þeim aðeins og tók fleiri myndir. En svo þegar við vorum að keyra til baka frá þeim þá sjáum við mann með hjálm labbandi á veginum. Ég stoppaði hjá honum og þá auðvitað kom í ljós að þetta var knapinn, hesturinn hafði hent honum af baki. Hann var sjálfsagt um áttrætt karlinn, hann var nú alveg í lagi sýndist mér eftir byltuna emoticon

Set nokkrar myndir hérna:










Þið getið séð myndirnar sjálfsagt í stærra formi inn á Albúminu.

Megið endilega kommenta á myndirnar ef þið hafið áhuga.

Jæja annars er það ekki meira í bili.

Kveðja, Hlín og Gunni.

01.01.2009 23:12

Ótitlað

Gleðilegt nýtt ár.

Jæja núna er árið 2008 búið og nýtt ár hafið. Það er ansi langt síðan við skötuhjú höfum skrifað inn á síðuna okkar. Ég held að það væri ekki vitlaust að setja sér þau áramótaheit að vera duglegri að blogga þetta árið. Eða blogga eitthvað yfir höfuð bara.

Annars hafa jólin bara verið góð hjá okkur. Hlín fór með fjölskyldunni sinni til Svíþjóðar og eyddu jólunum þar með Magnúsi. Ég var heima bara á klakanum að hafa það náðugt og nýta tímann og vinna í bílunum hjá mér.

Ný önn fer svo að byrja í skólanum og vonandi mun hún bara ganga vel. Mér alla vega líst ágætlega á þá áfanga sem ég er að fara í og mér skyldist á Hlín að svo væri líka hjá henni. Við erum alla vega hálfnuð með háskólanámið núna og því "aðeins" eitt og hálft ár eftir.

Þetta verður stutt núna hjá mér, ég plata hana Hlín til þess að skrifa eitthvað skemmtilegt fljótlega og jafnvel að setja inn einhverjar myndir.

Kveðja,

Gunnar Lár.

18.08.2008 16:45

Dönsku dagarnir á Stykkishólmi


Jæja þá er önnur viðburðaríka helgin afstaðin

Ég og Hlín skelltum okkur á Dönsku dagana á Stykkishólmi. Sigmar og Áslaug,  vinafólk okkar að norðan er ættað þaðan og voru þau búin að lofa hátíðina svo vel að við gátum ekki annað en kíkt.

Við fórum á föstudaginn seinasta bara eftir vinnu, ég þurfti reyndar að taka mína með mér og blaðraði í símann alla leiðina liggur við. En á föstudagskvöldinu var ekkert sérstakt veður þannig við fengum gistingu í húsi foreldra hans Sigmars, rosalega flott "norsk" timburhús sem er ekki ósvipað hennar mömmu.

Við tókum því svo bara rólega á föstudagskvöldinu og rúntuðum örlítið, vorum ekki alveg að nenna út vegna unglingafyllerís

Á laugardeginum kíktum við svo til Grundarfjarðar til foreldra Áslaugar, Sigmar varð eftir að græja og gera fyrir tónleikana sem hann var að fara að spila á um kvöldið.

Á Grundarfirði var ekkert af fólki á ferli, komumst reyndar að það var jarðarför í gangi þannig það hefur kannski útskýrt eitthvað. Við horfðum á restina af handboltaleiknum þar sem við gerðum jafntefli við danadjöflana. Við fengum einnig dýrindis vöfflur með. Ég hefði orðið brjálaður ef við hefðum tapað þeim leik, frekar svekkjandi að vera á dönskum dögum og tapa svo fyrir þeim

Svo tjölduðum við bara á laugardeginum og vorum í mat hjá mömmu hans Sigmars um kvöldið. Fengum mjög gott lambalæri og allt tilheyrandi með því.

Svo var bara farið í bjórinn og legið í honum eitthvað fram eftir kvöldi. Það er kannski ástæðan fyrir því að þegar ég bað um að fá að blása hjá lögreglunni daginn eftir áður en við lögðum að stað að ég fékk bara NEI, Var ekki hæfur til aksturs næstu 4 tímana samkvæmt löggimann. Hlín var ekki með ökuskirteinið sitt þannig við þurfum bara að doka aðeins við. Tókum góðan labbitúr og ég fékk mér vel að borða og drekka, fór svo og blés aftur eftir rúmann einn og hálfann tíma og þá var ég orðinn góður...

En þetta var fín hátið og er ég alveg viss um að kíkja þarna aftur. Skemmtileg stemmning og mjög fallegur bær.

Annars er lítið annað að frétta nema við förum auðvitað aftur til Akureyrar næstu helgi, skólinn byrjar á mánudaginn. Þannig við þurfum bara að fara að pakka dótinu okkar og gera okkur tilbúin. Skólinn fer að bresta á

Jæja gott í bili, 


13.08.2008 14:42

Akureyri Flutningar - Taka 2


Jæja þá erum við flutt enn á ný. Við fórum nú reyndar ekki ýkja langt þetta skiptið. Heldur einungis yfir ganginn í enn stærri íbúð en við vorum í.

Fólkið sem bjó á móti okkur, Dallas og Ashley fluttu aftur til Bandaríkjana. Dallas fékk stöðu í Kansas og fluttu þau því með frekar stuttum fyrirvara.

Amma og afi hennar Hlínar buðu okkur hina íbúðina því við vorum búin að óska eftir henni ef hún losnaði. Við auðvitað þáðum þetta boð og þó þetta hafi nú ekki verið á fjárhagsplaninu hjá okkur þá sleppir maður auðvitað ekki svona tækifæri.

Við ákváðum því að fara seinustu helgi og flytja þar sem skólinn færi nú að nálgast. Hlín og Loftur vildu auðvitað fara að reyna leigja íbúðina sem við vorum í út. Þannig það var bara skellt sér í ferð til Akureyrar. Reyndar var þetta á ágætis tíma því ég þurfti að sinna smá vinnu á Fiskideginum á Dalvík þannig það var hægt að sameina vinnuna og flutningana. En svefninn þurfti reyndar aðeins að líða fyrir þetta samstarf. Ég held ég hafi sofið í um 10 tíma alla blessuðu helgina. En það var seinni tíma vandamál.

En Íbúðin sem við fengum er 3 herbergja og töluvert stærri. Íbúðin brann fyrir 1-2 árum og var því allt nýinnréttað í henni og átti allt að vera tipp topp enda stutt síðan okkar fyrrverandi nágrannar fluttu þar inn í nýtt innbú má segja.

En það virðist svo sem almennt þriferni og frágangur hafi ekki verið kenndur á heimili þessa fólks í æsku því íbúðin var hreinn viðbjóður eins og þið getið séð í albúminu okkar.
Íbúðin leit út eins og ein af subbuholunum í "Allt í drasli" þáttunum nema það var bara búið að taka öll húsgögnin .  Hlín og Loftur voru líka alveg ekki nógu sátt við fráganginn á íbúðinni enda eins og ég sagði, það var allt nýtt!

En maður lætur ekki svona sóða og drulluskap stöðva sig, íbúðin var bara tekin og þrifin frá a-ö og ekkert skilið útundan.

Helgin sem átti að snúast um að flytja dótið okkar yfir snérist sem sagt um að liggja á gólfinu eða innan í bökunarofninum að skrúbba drullu eftir aðra. En núna er íbúðin alla vega hrein og fín og manni líður vel þar inni.

Við náðum ekki að koma okkur alveg fyrir en stóru hlutirnir eru alla vega komnir á sinn stað. Svo verður bara farið í að raða smáhlutunum þegar skólinn byrjar.

Ég og Hlín erum rosalega spennt fyrir þessari íbúð þar sem hún bíður upp á meiri möguleika og hægt að gera meira fyrir hana. Það verður líka frábært að fá aukaherbergi þar sem hægt er að loka sig af og læra stundunum saman.

En við erum bara ofboðslega fegin að þetta sé búið og núna getum við farið að gera íbúðina snyrtilega og koma öllu rétt fyrir.

Kveðja.

Skúringa-gaurarnir!

06.08.2008 14:35

Verslunarmannahelgin afstaðin

Jæja þá er verslunarmannahelgin búin.

Ég og Hlín brugðum okkur bara til Akureyrar yfir versló og höfðum það bara gott. Við byrjuðum örlítið að pakka og ganga frá þar sem við erum að flytja inn í íbúðina hinu megin við ganginn. Svaka flutningar það

Við erum samt mjög spennt fyrir að fá eitt auka herbergi og íbúð sem er öll nýinnréttuð. Guðjón bróðir útvegaði mér einmitt líka þennan frábæra sófa svo þetta verður held ég bara mjög flott þarna hjá okkur.

Þess má geta að baðherbergið okkar verður núna með glugga þannig að ég sé kannski eitthvað á spegilinn þegar ég raka mig

Annars styttist bara óðum í skólann og ég held að við séum bæði tvö bara spennt fyrir því að byrja aftur. Auðvitað skrýtið að fá svona frí frá skólanum í 3 mánuði en maður verður bara að koma endurnærður til baka.

Hlín verður svo gerð að einka-bílstjóra í september og nóvember þar sem ég fer í aðgerð á ónýta apparatinu sem nefnist víst öðru nafni ökklinn á mér.  Þannig Hlín fær þá líka góða æfingu í að keyra sjálf og auðvitað sinn heittelskaða því hann verður í gipsi í 2-4 vikur. Voða fínt

Meira er það nú ekki í bili held ég, fínt að reyna að blogga svona annað slagið þó enginn lesi þetta. Þetta æfir mann bara í að rita vandað mál og svo maður lendi nú ekki í því að byrja nota orð eins og eikka og hva segiru mar ? geggt !

14.07.2008 14:08

Ótitlað

Sælinú,

Mikið getur nú verið erfitt að muna eftir þessu blessaði bloggi. Það er ekki eins og maður sitji nú ekki við tölvu mest megnið af deginum. Jæja

Annars gengur lífið bara sinn vanagang og ekkert mikið spennandi búið að gerast. Ég er búinn í speglunar aðgerðinni á hnénu á mér og ég held að hún hafi gengið bara alveg ágætlega. Ég er enn svolítið bæklaður í að ganga rétt aftur en það kemur fljótlega.

Ég þarf að vera snöggur í gang og halda áfram að hreyfa mig, ég og Kristmann félagi minn erum svona að reyna að stefna að því að labba Laugarveginn seint í ágúst ef ég verð í lagi. En maður leyfir bara löppinni að ráða því.

Annars erum við nú bara búin að vera að vinna bæði ég og Hlín á fullu. Hlín fer nú reyndar svo út til Mallorca þar næsta miðvikudag. Voðalega nice .

Svo þarf maður bara svona fljótlega að fara að hugsa um næstu önn gera sig tilbúinn. En það er búið að vera ágætt að fá smá frí í sumar þó það sé alveg hellingur að gera. Þá er þetta bara aðeins öðruvísi álag.

Jæja ekki meira í bili,

Kveðja, Gunnar Lár.

25.05.2008 23:47

Reykjavíkurnætur

Mér fannst við hæfi að henda inn smá færslu hér til að láta vita að við værum nú ekki alveg hætt í blogginu góða.

Ég var að enda við að endurnýja áskriftina að blogginu og því verðum við að reyna að vera dugleg á þessu ári og halda þessu svolítið uppfærðu annað slagið.

Annars er bara allt gott að frétta af okkur skötuhjúum, við vorum bæði að koma frá útlandinu, ég frá Norge og Hlín frá Svíþjóð.

Annars er það helsta sem er að frétta er að prófin okkar eru búin og okkur gekk báðum bara hreint ágætlega. Við náðum bæði öllum prófunum og erum bara nokkuð sátt með einkunnir okkar.

Við erum sem sagt komin núna til Reykjavíkur í sumar, erum flutt inn á Hótel Pabba í Garðabænum. Skrýtið að koma í gamla herbergið sitt aftur svona. Allt nýmálað og orðið svaka flott.

Annars er stefnan hjá okkur í sumar að reyna að afla einhverja seðla, það kostar víst að lifa á þessum "krepputímum"

Hlín er með sína föstu vinnu á Landspítalanum og verður þar í sumar. Ásamt því að hún fékk smá hliðarvinnu við að hjálpa við rannsókn á vegum Háskóla Íslands, eitthvað í þá áttina.. Fer allt að skýrast. En það hljómar voðalega spennandi alla vega.

Ég fékk vinnu hjá Vífilfelli hjá markaðsdeildinni. Ég er alveg gífurlega þakklátur fyrir það tækifæri (thanks bro) því þetta á eftir að nýtast mér í náminu alveg heilann helling. Svo er nú ekki verra að geta sett þetta á ferilskránna skooo . Ég mun sem sagt verða að aðstoða við ýmsar herferðir sem verða í sumar, ég er ekki alveg kominn inn í þetta hvernig málin verða en þetta hljómaði alla vega mjög spennandi það sem ég fékk að vita. Verður fjölbreytt og skemmtilegt sumar.

Ég ætla svo  að koma með góða færslu um Noregsferðina hjá mér núna fljótlega ásamt nokkrum myndum.

Hef þetta ekki lengra í bili, bara láta vita að við vorum bara geymd en ekki gleymd..

Kveðja, Gunni og Hlín.

02.02.2008 21:47

Snjórkorn falla, á allt og alla....

Jæja núna er snjórinn loksins kominn sem ég er búinn að vera bíða eftir. Við ætluðum að koma suður þessa helgi og ég ætlaði að skella mér í nokkrar vísindaferðir sem voru skipulagðar af skólanum í bænum, en svo varð ekkert úr ferðinni hjá okkur sökum þess við nenntum bara ekki að keyra í þessu veðri í marga tíma, og svo aftur í sunnudag.

Það hefur alla vega kyngt niður snjó hér alveg síðan á fimmtudag og allt orðið vel pakkað af snjó. Ég er búinn að fíla mig í botn að keyra upp á alla hóla og hæðir hér en svo í dag kom smá skellur, var uppi á Vaðlaheiði með einum kunningja mínum úr skólanum og ég braut  boltana í einni drifloku hjá mér. Úps, keyrði í afturdrifinu aftur heim, eins brösulega og það gekk nú að þá komst ég heilu á höldnu til baka.

Afi hennar Hlínar, Loftur var svo góðhjartaður að leyfa mér að setja Trölla inn í skúr til sín og kíkja á vandamálið, vonandi að ég leysi þetta nú eins fljótt og hægt er svo ég geti farið út að spóla aftur. Alveg ómögulegt að hafa jeppann inni í skúr meðan allur snjórinn er.

Annars gengur lífið bara sinn vanagang og maður er kominn svona aðeins inn í "læru" rútínuna aftur. Fer að líða að verkefnum hjá mér og ætli maður þurfi ekki að fara að huga að þeim og byrja að skrifa niður hugmyndir að því sem maður ætlar að gera.

Mig langaði líka að koma með eitthvað nýtt á bloggið og hef ég ákveðið að hverri færslu frá mér muni ljúka á því að ég kem með eitthvað "quote" frá annað hvort frægri manneskju eða hugsanlega úr bíómynd eða þvíumlíkt.

Anyways, quote bloggsins núna er:
"He has never been known to use a word that might send a reader to the dictionary." -William Faulkner (about Ernest Hemingway)

Kveðja, Snjókallarnir að norðan.

28.01.2008 16:25

Akureyrarvísur



Jæja, er ekki komið að hinu alls ekki algengu og hvað þá skipulögðu bloggfærslu uppfærslu hjá okkur skötuhjúunum.

Það er allt gott að frétta héðan og allt sæmilega rólegt ennþá, skólinn er ekki farinn í gang að fullu svo maður bíður hvellsins bara með makindum (auðvitað dettur manni ekki í hug að læra fram í tímann, það er stranglega bannað með lögum... :) )

Það er búið að vera í nógu að snúast hjá okkur að nýta tímann svona áður en álagið byrjar að dunda í litlu íbúðinni okkar, vorum að klára að setja upp skápinn sem við keyptum í Ikea og koma honum fyrir, sem var nú hægara sagt en gert og hvað þá að finna gólfpláss til að setja flykkið saman. En það hófst á endanum og á hún Hlín loksins almennilega hirslur undir öll fötin sín milljón.

Veðrið er bara búið að vera ágætt miðað við þarna í rokrassgati hjá ykkur fyrir sunnan, þó mætti nú alveg eitthvað af þessum snjó sem virtist hafa villst af leið og endað á Suðurnesjunum alveg koma hingað. Trölli greyið (nei mér finnst engin kaldhæðni í að kalla jeppann minn trölla hehe ) er farið að langa í smá snjóhvell til að fara út að leika, fór í smá skottúr með Hauki félaga mínum hérna fyrir norðan eftir að við gerðum heiðarlega tilraun til að fara á skíði en það var svo hvasst að það var ekki hundi út sigandi þannig við ákvaðum bara að fara í smá bíltúr í staðinn.

Stefnan er svo að koma suður næstu helgi, það er stór vísindaferð í skólanum sem ég hef nú samt á tilfinningunni að sé ekki mikill stemmari fyrir hérna. Við erum alla vega að hugsa um að skella okkur suður og jafnvel kíkja eitthvað með fólkinu sem fer.

Ég keypti mér svo loksins kort í ræktinni í stöð sem heitir Átak hérna, virðist vera ágæt, svipar svolítið til "World Class" þemans sem ég er nú reyndar ekkert afskaplega hrifinn af en þetta verður nú sjálfsagt allt í góðu.

Jæja nóg af bulli í dag, bloggið er víst ekki nógu góð afsökun svona lengi til þess að halda ekki áfram að hripa niður tölfræði .

Kveðja.

Gunni og Hlín.
Flettingar í dag: 11
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 4
Samtals flettingar: 106209
Samtals gestir: 6783
Tölur uppfærðar: 15.3.2025 02:30:22

Eldra efni

Gunni og Hlín

Tenglar