13.08.2008 14:42
Akureyri Flutningar - Taka 2
Jæja þá erum við flutt enn á ný. Við fórum nú reyndar ekki ýkja langt þetta skiptið. Heldur einungis yfir ganginn í enn stærri íbúð en við vorum í.
Fólkið sem bjó á móti okkur, Dallas og Ashley fluttu aftur til Bandaríkjana. Dallas fékk stöðu í Kansas og fluttu þau því með frekar stuttum fyrirvara.
Amma og afi hennar Hlínar buðu okkur hina íbúðina því við vorum búin að óska eftir henni ef hún losnaði. Við auðvitað þáðum þetta boð og þó þetta hafi nú ekki verið á fjárhagsplaninu hjá okkur þá sleppir maður auðvitað ekki svona tækifæri.
Við ákváðum því að fara seinustu helgi og flytja þar sem skólinn færi nú að nálgast. Hlín og Loftur vildu auðvitað fara að reyna leigja íbúðina sem við vorum í út. Þannig það var bara skellt sér í ferð til Akureyrar. Reyndar var þetta á ágætis tíma því ég þurfti að sinna smá vinnu á Fiskideginum á Dalvík þannig það var hægt að sameina vinnuna og flutningana. En svefninn þurfti reyndar aðeins að líða fyrir þetta samstarf. Ég held ég hafi sofið í um 10 tíma alla blessuðu helgina. En það var seinni tíma vandamál.
En Íbúðin sem við fengum er 3 herbergja og töluvert stærri. Íbúðin brann fyrir 1-2 árum og var því allt nýinnréttað í henni og átti allt að vera tipp topp enda stutt síðan okkar fyrrverandi nágrannar fluttu þar inn í nýtt innbú má segja.
En það virðist svo sem almennt þriferni og frágangur hafi ekki verið kenndur á heimili þessa fólks í æsku því íbúðin var hreinn viðbjóður eins og þið getið séð í albúminu okkar.
Íbúðin leit út eins og ein af subbuholunum í "Allt í drasli" þáttunum nema það var bara búið að taka öll húsgögnin

En maður lætur ekki svona sóða og drulluskap stöðva sig, íbúðin var bara tekin og þrifin frá a-ö og ekkert skilið útundan.
Helgin sem átti að snúast um að flytja dótið okkar yfir snérist sem sagt um að liggja á gólfinu eða innan í bökunarofninum að skrúbba drullu eftir aðra. En núna er íbúðin alla vega hrein og fín og manni líður vel þar inni.
Við náðum ekki að koma okkur alveg fyrir en stóru hlutirnir eru alla vega komnir á sinn stað. Svo verður bara farið í að raða smáhlutunum þegar skólinn byrjar.
Ég og Hlín erum rosalega spennt fyrir þessari íbúð þar sem hún bíður upp á meiri möguleika og hægt að gera meira fyrir hana. Það verður líka frábært að fá aukaherbergi þar sem hægt er að loka sig af og læra stundunum saman.
En við erum bara ofboðslega fegin að þetta sé búið og núna getum við farið að gera íbúðina snyrtilega og koma öllu rétt fyrir.
Kveðja.
Skúringa-gaurarnir!
Skrifað af Gunnar
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 4
Samtals flettingar: 106248
Samtals gestir: 6811
Tölur uppfærðar: 15.3.2025 04:49:18