Færslur: 2009 Apríl

10.04.2009 20:30

Long time no see

Jæja núna er orðinn alltof langur tími síðan eitthvað var skrifað hér inn. Páskarnir eru gengnir í garð og við skötuhjúin erum bara heima að taka því rólega. Við ákváðum ekki að fara til borg óttans þetta árið.

Fjölskyldan hennar Hlínar var hjá okkur núna frá mánudegi til föstudags. Magnús Steinn kom frá Sverige og keyrðu hele familien svo til Akureyrar og gistu í litlu íbúðinni okkar. Það var þó alveg nóg pláss. Það er búið að vera mjög gaman þessa vikuna og mikið búið að gera. Ég tók hann Steina einn rúnt upp á Fálkafell og Súlumýrar á Súkkunni og Óli kom með syni sínum einnig. Það var ágætis skemmtun þrátt fyrir leiðinlegt færi.


En nóg um það, ég ætlaði nú að skrifa hér líka litla ferðasögu af Geysisferðinni sem ég fór í 27-29.mars síðastliðinn. Þetta átti sem sagt að vera ferð á slóðir björgunarmannana sem fóru í leiðangur upp á Vatnajökul til að bjarga áhöfninni úr Geysis flakinu sem hrapaði þar árið 1950.

4x4 klúbburinn hér fyrir norðan skipulagði ferðina og planið að keyra þá sömu leið og björgunarmennirnir fóru héðan frá Akureyri. Lagt var af stað frá Leirunesti á föstudegi um hádegið. Upphaflega voru ríflega 30 bílar skráðir í ferðina en þeim fækkaði niður í um 20 vegna veikinda og forfalla. Mönnum var svo skipt upp í hópa sem lögðu af stað á mismunandi tímum eftir því hvað hentaði þeim best. Ég var í hópi 1 sem lagði af stað um hádegið. Ég vildi vera framarlega í hópnum bara uppá ef við yrðum lengi á ferðinni og ef eitthvað kæmi uppá.. Sem það auðvitað gerði, en ég kem að því seinna.



Það voru fimm bílar í mínum hóp, Einn 44" Patrol, 38"&44" Land Rover, Súkkan mín á 35" og Econline á 46".



Hópurinn eins og ég sagði að ofan hittist á Leirunesti og þaðan lögðum við af stað inn í Mývatnssveit. Við stoppuðum svo í Reykjahlíð til að tanka á bílana áður en haldið yrði af stað í áttina að Drekagili. Fyrstu nóttina átti sem sagt að gista inn í Dreka. Svo þegar allir bílar voru orðnir mettaðir af eldsneyti var ferðinni haldið áfram. Það var ágætis veður þarna á föstudeginum og færið ljómandi svona í byrjun ferðarinnar. Súkkan dreif vel og allt í góðu standi. Þegar leið svo á daginn tók Súzuki á því að slíta einn af nýju mótorpúðunum sem ég hafði sett undir millikassann daginn áður. Ég var sem sagt búinn að taka millikassann í gegn fyrir ferðina þar sem hann lak aðeins og skipti ég því um pakkdósir í kassanum. Í leiðinni ákvað ég að skipta um þessa púða þar sem millikassinn hristist mikið og djöflaðist undir bílnum þegar það var erfitt færi. Ég sett stóra púða undir kassann sem ég hélt að myndi nú örugglega halda þessu litla dóti. En nei, aflið í Súkkunni (kaldhæðni) var það mikið að hún sleit einn púðann nánast strax í byrjun.



Þarna voru góð ráð dýr þar sem ég var ekki með gömlu púðana með mér. Sem betur fer segi ég nú bara var einn bifvélavirki með í túrnum, hann var ss kóari á Land Rover hjá honum Birni Pálssyni og hann var ekkert í neinum vafa hvað þyrfti að gera. Strappa kassann niður! - Já það hljómaði alla vega mjög rökrétt hjá honum. Við fengum lánaðann strappa hjá honum Bjössa og prufuðum að festa kassann. Þessi redding hélt nú reyndar ekki lengi, krókurinn á strappanum náði einhvern veginn slaka og losnaði því átakið á öllu saman og kassinn losnaði upp á ný. Við hertum þetta og breyttum þessu nokkrum sinnum yfir daginn og komst Súkkan nú töluverðan spotta í þessum æfingum. En undir kvöldið þá var farið að dimma og annar bíll í hópnum byrjaður með smá bilerí. Það var Patrol hjá honum Kristjáni Ólafssyni sem er með Toyota Landcruiser 80 mótor (4.2 línusexa). Það fór eitthvað öryggi í bílnum en því var reddað fljótlega. Við ákváðum því þar sem það höfðu orðið töluverðar tafir yfir daginn að húkka Súkkunni bara aftan í Björgunarsveitarbílinn sem var með okkur í hóp (Ford Econline á 46" blöðrum). Það voru ekki nema 7 km í Dreka og því engin ástæða til að vera anskotast til að reyna festa millikassann aftur þegar svona stutt var í skálann.

Ég hékk í spotta þessa 7km og líkaði það bara vel. Það heyrðust nú í talstöðinni orðrómar að þetta væri "taktík" hjá Súkkugenginu til að spara bensín þar sem ekki var víst að þeir hefðu haft með sér nóg (Þó 120 lítra alls).




En það var nú ansi gott að komast að Dreka og geta farið að gera við Súkkuna almennilega. Ég var ekkert smá feginn þegar ég heyrði að einn af körlunum úr öðrum hóp hefði haft borðvél með sér. Það var þá ekkert annað í stöðunni en að bora boltana í sundur úr festingunum í millikassanum og bora einnig sjálfann púðann bara í gegn og bolta þetta fast þannig að þetta myndi nú ALLS ekki losna.....

Viðgerðin tók nú engan ógurlegan tíma en þó var mér og Stefáni orðið frekar kalt í -15 gráðunum úti. En viðgerðin hafðist á endanum og Súkkan tilbúinn til að mæta næsta degi.

Um kvöldið fór hópurinn að fá sér örlítið í aðra tánna og leggja á ráðin með næsta dag. Spáin fyrir næsta dag var ekkert sérstaklega góð og var von á ansi vondu veðri upp á Vatnajökli á laugardeginum. Það var því algert glapræði að fara að ætla sér upp á jökul með þessa spá í huga og hættum við því við að fara á Bárðarbunguna. Það voru allir í hópunum sammála um þetta og var því ákveðið að fara inn í Réttartorfu sem er í Bárðardal held ég. Þar er skáli í eigu 4x4 eða Ferðafélags Akureyrar (man það ekki alveg).

Daginn eftir var lagt af stað frekar snemma eftir að allir hefðu gætt sér á dýrindis hafragraut og slátri sem var eldaður fyrir allan mannskapinn. Ekki verra það.

Færið á laugardeginum var ekkert sérstaklega skemmtilegt og mjög þungt. Veðrið var orðið fremur vont og skyggnið ekki gott (Mjög jákvæður er maður nú alltaf). Ég átti erfitt með að elta sporin hjá hinum í hópnum þar sem allir voru auðvitað á mun stærri dekkjum en Súkkan. Það var því bara ekið utan spors með allt í botni.. Það dugaði eitthvað fram eftir degi þangað til hinir tveir púðarnir í millikassanum ákváðu að slitna eins og sá deginum áður. Við tvíströppuðum því kassann bara niður og hélst það í lagi það sem eftir var dags. Það gerði gæfumuninn að púðarnir voru tveir þarna meginn og ekki var eins mikið álag frá kassanum þarna megin.



Annars var dagurinn bara góður og flestir drifu nú alveg ágætlega. Ég þurfti aðeins að hemja mig á gjöfinni til að slíta ekki strappana og reyna að halda jöfnum ferðahraða.

Loks komum við að Réttarkoti, og þar var farið í viðgerðir á Súkkunni aftur. Ég og Stefán réðumst í að þá framkvæmd að bora hina púðana út.. Það kom þó smá óhapp upp og skrifast það nú alfarið á mig. Málið er að borvélin sem við fengum lánaða var 12V og var hún tengd við sígarettukveikara. Ég setti því borvélina í samband og ætlaði að starta bílnum haldandi að hann væri í hlutlausum. En það var nú ekki alveg raunin og var bíllinn í fyrsta gír og í lága drifinu, ég svissaði á bílinn og haldiði að helvítis Súkkan hafi ekki ætt áfram með mig hálfann inn í bílnum haldandi á borvélinni. Ég reyndi nú að stökkva inn í bílinn og bremsa en ýtti örlítið á bensínið í leiðinni og komst bíllinn á smá ferð. Hann stöðvaði nú reyndar á endanum en því miður skelltum við aðeins utan í Land Rover hjá honum Bjössa félaga mínum. Til allrar lukku er nú sterkara í Land Rover heldur en í Suzuki og varð því bretanum ekkert meint af en það brotnaði smá uppúr stuðaranum hjá mér. Ekkert alvarlegt og ég var eiginlega bara guðs lifandi feginn að enginn slasaðist eða að það hefði orðið meira tjón af. Maður var auðvitað eins og auli eftir þetta og ég hóaði strax í hann Bjössa og sagði honum frá þessu. En svona gerast hlutirnir bara og maður verður að læra af svona mistökum.

 

Ég og Stebbi kláruðum að gera við Súkkuna og fórum svo inn í skála að fá okkur að borða. Orðnir helvíti kaldir og svangir eftir allan hamaganginn.

Það voru ekki allir sem ákváðu að gista inn í Réttartorfu á laugardeginum, það var ansi stór hluti hópsins sem ákvað að brenna bara beint til Akureyrar (enda ekki langt að fara svo sem). Þeir sjá nú reyndar held ég eftir þeirri ákvörðun í dag þar sem einn af bílunum sem fóru affelgandi út í miðri Suðurá og þurfti að fá dráttarvél frá Svartárkoti held ég að það heiti til að liðsinna þeim og ná bílnum uppúr ánni. Við hins vegar sem ákváðum að vera eftir sátum bara í hitanum inn í skálanum að hlusta á ófarir hinna í VHF talstöð drekkandi öl og hlustandi á tónlist.



Daginn eftir hélt allur hópurinn til Akureyrar. Við fórum auðvitað yfir sömu ánna og hinir lentu í veseninu í, barðið ofan í ánna var ansi hátt fyrir Suzuki og ákváðum við því að brjóta aðeins af því svo greyið myndi nú ekki velta framfyrir sig.



Þessi dagur gekk áfallalaust fyrir sig og dreif Súkkan bara nokkuð vel. Ég var að minnsta kosti sáttur með kaggann.

Við stoppuðum í smá stund á Samgöngusafninu á Ystafelli. Ég verð að segja að ég var nú hálf agndofa yfir þessu safni. Ég hafði aldrei komið þarna og það kom mér skemmtilega á óvart.



Svona allt í allt var þetta alveg snilldar ferð og er ég mjög feginn að hafa farið í hana þó maður hafi lent í smá óhöppum. Þetta fer allt í reynslubankann og maður verður tilbúinn með betri bíl fyrir næsta vetur. Er einmitt búinn að panta sterkari púða fyrir millikassan sem halda þessu dóti á sínum stað.

Þetta var alla vega ferðasagan frá Geysisferðinni, ég er ekki alveg viss hvort einhver nenni að lesa þetta en ég á þetta alla vega skrifað niður þangað til ég verð orðinn gamall og elliær og hef gaman af því að lesa svona sögur.

Áður en ég hætti nú að skrifa þá langaði mig líka að segja stutt frá lítilli ferð sem ég og Hlín fórum saman í. Það var fjölskyldudagur 4x4 klúbbsins uppi á Súlumýrum fyrir ofan Akureyri. Það var hist á hádegi á laugardeginum og grillað. Asskoti góður dagur og ég var nú mest sáttur með hvað henni Hlín fannst gaman. Hún tók sig til og tók hring á Trölla og henni fannst það ekkert smá gaman.




Annars er þetta nú komið í bili, það er hægt að nálgast myndirnar úr Geysisferðinni og Fjölskyldudeginum í myndaalbúminu hjá mér.

Kveðja, Gunnar Lár




  • 1
Flettingar í dag: 129
Gestir í dag: 41
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 4
Samtals flettingar: 106327
Samtals gestir: 6820
Tölur uppfærðar: 15.3.2025 05:10:49

Eldra efni

Gunni og Hlín

Tenglar